Wednesday, February 21, 2007

Mikið að gera og læra

Það er ekki að hægt að segja að maður hafi ekki nóg fyrir stafni hér. Nú hefur bæst við Thai nudd námskeiðið sem mun standa yfir næstu tvær vikurnar. Það er mjög mikið sem maður þarf að læra þar. Athyglin þarf að vera 100% allan tímann og kennarinn gerir miklar kröfur til allra. Ég er mjög ánægð með námskeiðið. Það nýtist mjög vel til jógakennslu því það eru miklar teygjur og sveigjur í þessu nuddi. Ég fór og hitti Putti vinkonu mína. Tók Víði og Þorbjörn með. Þorbjörn stundar jóga í yoga shala reykjavík. Það var voðalega krúttlegt. Hún bauð okkur inn í te. Foreldrar hennar voru ekki heima en frænka og frændi voru þarna. Hún kveikti strax á sjónvarpinu og við litum á það við og við. Bollywood í öllu sínu veldi. Síðan fór hún að spyrja um mig og Víði, hvort við byggjum nálægt hvort öðru. Það kom náttúrulega ekki upp í huga hennar að við byggjum saman. En henni finnst mjög spennandi að tala um hvernig þetta er allt saman öðruvísi í hinum vestræna heimi. Við ætluðum í bíó með henni og vinum hennar í kvöld. Planið var að fara kl 19.30. Ég fékk síðan sms frá henni þar sem hún sagði að það væri of seint því hún færi ekki út eftir 21.30. Þegar við sátum öll og drukkum te saman vorum við að velta því fyrir okkur hvað hún væri gömul. Líklega er hún eitthvað í kringum 25. En hún er bara svo lítil og smá þannig að það er erfitt að segja. Skiptir svosum engum máli. Hún segist vera algjör mömmustelpa og finnst mjög erfitt að vera í burtu frá henni. Mér var þá hugsað hvernig giftingarmálum er háttað hér. Konan þarf að yfirgefa sína fjölskyldu og flytja til eða í nágrenni við fjölskyldu eiginmannsins. Og þá þarf að segja bless við mömmu sína. Meena vinkona var einmitt að tala um þetta við mig um daginn. Mamma hennar býr í Chennai. Hún á víst mjög erfitt andlega. Er víst farin að klípa tengdadætur sínar sem eru alveg búnar að fá nóg af henni. Það er víst mjög slæmt hvernig hún hagar sér því eitt af barnabörnum ( stelpa) er komin á giftingar aldur. Ef tengdamamman er svona klikk er ekki víst að vonbiðlarnir verði margir. Þannig að Meena er mjög áhyggjufull og er föst hér. Hún sagði við mig að hún vildi að hún gæti óskað sér að það væri mögulegt fyrir hana að hafa mömmu sína hjá sér. En það er víst ekki hefðin. Þá yrði tengdamamma hennar nú ekki hress. Hér er víst mjög oft erfitt milli tengdadætra og mæðra. Tengdamæðurnar eru harðar við tengdadæturnar því þær vita að þær elska sínar mömmur meira. En eflaust er eitthvað meira á bak við þetta. Hér fær maður oft mjög einfaldar skýringar og ekki alltaf réttar.
Þannig að það er bíóferð framundan. Líklega um helgina þegar við erum ekki á nuddkúrsinum. Og matarboð hjá Putti. Ég kvaddi Putti þetta kvöld, komin í nýja mussu eða hefðbundin indverskan klæðnað sem hún gaf mér, með nýtt hálsmen því henni fannst ég ekki nógu mikið skreytt og með bindí sem hún handmálaði á ennið á mér á þriðja augað.
Nú er ég alveg að verða Indversk.

2 Comments:

At February 21, 2007 at 2:58 PM, Anonymous Anonymous said...

Hæ elskan,
gaman að heyra að allt gengur vel, sakna ykkar og veit að amma gerir það líka. Reyni að vera dugleg að sinna henni. Ástarkveðja til ykkar og njótið tilverunnar. Kv. Inga

 
At February 24, 2007 at 1:40 PM, Anonymous Anonymous said...

Gott að heyra að ykkur líður vel. Ég elska svona andlitsmálningar, þær eru svo fallegar.

Biðjum að heilsa Víði.

Kram UE

 

Post a Comment

<< Home