Sunday, February 25, 2007

Bleika perlan

Það var frí um helgina. Ekkert nudd, ekkert jóga. Kærkomið frí. Síðasta vika var dálítið strembin og næsta vika verður það líka. Enzo brjálaði thai kennarinn hefur verið rosalega góður við okkur. Hann hefur nánast ekkert öskrað á okkur eins og hann er víst vanur að gera. Enda sagði ég við hann áður en ég skráði mig á námskeiðið að ef hann myndi öskra mikið á mig myndi ég verða heyrnalaus. Hann er ótrúlega sérstakur karakter. Ég hef svo gaman að fólki sem er öðruvísi. Hann var eins og margir, í jakkafötunum sínum að selja tryggingar, átti hús, bíl og kærustu. Síðan hélt kærastan framhjá og hirti húsið. Enzo fór til Thailands og féll fyrir thai nuddi. Ég held að hann hafi farið lítið heim, allavega ekki síðustu 14 ár en fór víst heim í fyrra því pabbi hans var að deyja. Hann hafði ekki talað við hann í 20 ár. Maður sér að hann er með heilmikið farteski á bakinu, reiði, vonbrigði......og margt fleira. En ég sé ljúflinginn í honum.
Undan farnar 2 vikur hefur yndisleg Indversk nuddkona komið til mín. Hún er með svo góðar hendur og góða orku í kringum sig. Ég set indverska tónlist á og stundum syngur hún með. Hún hefur mikla ástríðu fyrir nuddi og maður finnur svo sannarlega fyrir því. Ég gaf henni ayurvedic nuddbók. Hún var svo ánægð. Í dag kom hún til mín. Við spjöllum alltaf heilmikið saman. Ég spyr og spyr. Hún t.d heldur ekkert upp á afmælið sitt því hún er ein. Maðurinn hennar dó fyrir 8 árum. Hún er 37 ára og á engin börn. Er sjálfstæð og að safna sér fyrir húsi. Mig langar svo að bjóða henni heim. Hún gæti unnið sér inn góðan pening. Finnst ykkur ekki að ég ætti að bjóða henni heim þegar ég er komin með góða nuddaðstöðu?? Allavega, þegar hún fór tekur hún gullfallegan hring af fingri sér, gullhringur með bleikri perlu og gefur mér. Ég fekk tár í augun. Þetta elska ég. Svona stundir fá mig til að elska Indland. Ég vil líka bjóða Tinu heim. Hún eldar besta mat í heimi. Ég spurði hana í fyrra hvort hún væri ekki til í að koma til Íslands og halda indverskt matreiðslunámskeið. Þá hafði hún aldrei farið í flugvél en nú er hún búin að æfa sig og tilbúin í slaginn. Kannski næsta sumar. Einhverjar uppástungur?? Ég vil líka flytja heim einn flautukennara sem ég er alltaf heima hjá að læra á tabla. Hann heldur 3 daga workshop á indverska flautu og talba kennari á tabla. Þetta gæti verið mjög skemmtilegt fyrir tónlistarfólk heima. Það varð ekkert úr bíóferð þessa helgina. Putti varð veik og fór á spítala en er komin heim. Ég og Víðir hittum indverskan kristin prest sem er með "Mysore hope centre". Hann hjálpar fólki sem líður ílla og er með fullt af börnum hjá sér. Við kíkjum í heimsókn til hans næstu helgi. Ég mun einnig heimsækja munaðarlaus börn með Meenu vinkonu. Ætla að vera duglegri í að láta gott af mér leiða. Takk fyrir commentin. Mér finnst voða gaman að lesa þau.

Wednesday, February 21, 2007

Mikið að gera og læra

Það er ekki að hægt að segja að maður hafi ekki nóg fyrir stafni hér. Nú hefur bæst við Thai nudd námskeiðið sem mun standa yfir næstu tvær vikurnar. Það er mjög mikið sem maður þarf að læra þar. Athyglin þarf að vera 100% allan tímann og kennarinn gerir miklar kröfur til allra. Ég er mjög ánægð með námskeiðið. Það nýtist mjög vel til jógakennslu því það eru miklar teygjur og sveigjur í þessu nuddi. Ég fór og hitti Putti vinkonu mína. Tók Víði og Þorbjörn með. Þorbjörn stundar jóga í yoga shala reykjavík. Það var voðalega krúttlegt. Hún bauð okkur inn í te. Foreldrar hennar voru ekki heima en frænka og frændi voru þarna. Hún kveikti strax á sjónvarpinu og við litum á það við og við. Bollywood í öllu sínu veldi. Síðan fór hún að spyrja um mig og Víði, hvort við byggjum nálægt hvort öðru. Það kom náttúrulega ekki upp í huga hennar að við byggjum saman. En henni finnst mjög spennandi að tala um hvernig þetta er allt saman öðruvísi í hinum vestræna heimi. Við ætluðum í bíó með henni og vinum hennar í kvöld. Planið var að fara kl 19.30. Ég fékk síðan sms frá henni þar sem hún sagði að það væri of seint því hún færi ekki út eftir 21.30. Þegar við sátum öll og drukkum te saman vorum við að velta því fyrir okkur hvað hún væri gömul. Líklega er hún eitthvað í kringum 25. En hún er bara svo lítil og smá þannig að það er erfitt að segja. Skiptir svosum engum máli. Hún segist vera algjör mömmustelpa og finnst mjög erfitt að vera í burtu frá henni. Mér var þá hugsað hvernig giftingarmálum er háttað hér. Konan þarf að yfirgefa sína fjölskyldu og flytja til eða í nágrenni við fjölskyldu eiginmannsins. Og þá þarf að segja bless við mömmu sína. Meena vinkona var einmitt að tala um þetta við mig um daginn. Mamma hennar býr í Chennai. Hún á víst mjög erfitt andlega. Er víst farin að klípa tengdadætur sínar sem eru alveg búnar að fá nóg af henni. Það er víst mjög slæmt hvernig hún hagar sér því eitt af barnabörnum ( stelpa) er komin á giftingar aldur. Ef tengdamamman er svona klikk er ekki víst að vonbiðlarnir verði margir. Þannig að Meena er mjög áhyggjufull og er föst hér. Hún sagði við mig að hún vildi að hún gæti óskað sér að það væri mögulegt fyrir hana að hafa mömmu sína hjá sér. En það er víst ekki hefðin. Þá yrði tengdamamma hennar nú ekki hress. Hér er víst mjög oft erfitt milli tengdadætra og mæðra. Tengdamæðurnar eru harðar við tengdadæturnar því þær vita að þær elska sínar mömmur meira. En eflaust er eitthvað meira á bak við þetta. Hér fær maður oft mjög einfaldar skýringar og ekki alltaf réttar.
Þannig að það er bíóferð framundan. Líklega um helgina þegar við erum ekki á nuddkúrsinum. Og matarboð hjá Putti. Ég kvaddi Putti þetta kvöld, komin í nýja mussu eða hefðbundin indverskan klæðnað sem hún gaf mér, með nýtt hálsmen því henni fannst ég ekki nógu mikið skreytt og með bindí sem hún handmálaði á ennið á mér á þriðja augað.
Nú er ég alveg að verða Indversk.

Thursday, February 15, 2007

Daglegt líf í Mysore

Ég byrja daginn á því að fara í jóga kl 7 og er búin um 9. Þá er komið að morgunmat og fer ég oftast til hennar Tínu minnar, sem mig langar svo að bjóða til Íslands til að halda matreiðslunámskeið. Um hálf ellefu fer ég í söngtíma. Eftir söngtímann fer ég í tabla tíma. Það var frekar erfitt í söngtímanum í dag. Þetta er frekar flókið en ég geri mitt besta. Er líka búin að vera að syngja á hverjum degi nánast svo ég er orðin dálítið þreytt í röddinni. Tablatímarnir verða líka flóknari en mjög skemmtilegir samt. Ég er farin að æfa mig heima á trommurnar mínar sem hjálpar til við að muna hvað ég var að gera í tímum. Ég skrifa smá niður, það sem ég skil, því kennarinn talar ekki mikla ensku. Ég fór í Thai nudd í vikunni hjá mjög sérstökum manni. Dálítið intense týpa. Mjög hreinn og beinn. Hann er ítalskur sviss og eitthvað meira. Hann er alveg kominn með nóg af sumum vestrænu jógunum hérna....hehehe og skil hvað hann á við. Hér finnast jógadívur og fólk sem er bara að stunda einhverja fimleika og er bara að sýnast. Einnig eru klíkur hér sem hafa myndast. Þar sem ég hef alltaf komið ein hef ég staðið fyrir utan þetta og verið meira með innfæddum. Ég kem til að vera í orkunni og hjá mínum Gúrú. Elsku Patthabi var að leiða tíma í morgun og stundum þegar hann var að telja í stöðunum sofnaði hann. Dóttir hans ýtti þá aðeins við honum og hann hélt áfram. Verst var að stundum sofnaði hann þegar við vorum í mjög erfiðum stöðum og fólk var farið að vera hálf vandræðalegt. Ég ætla að fara á námskeið í Thai nuddinu í næstu viku og bæta aðeins við nuddþekkingu mína. Það er ekki eins auðvelt að finna góðan kvöldmat hér því það er nánast bara indverskur matur í boði. Þar sem að ég fekk ógeð á þeim mat hef ég verið í smá vandræðum en fengið mér súpur og svona. Ég er reyndar að fá aftur lyst á indverskum sem betur fer. Ég fer yfirleitt að sofa um 10 leytið. Það getur verið að ég fari til Bylakuppe til munkanna um helgina. Ég skila kveðju.

Wednesday, February 07, 2007

Síðasta sunnudag fekk í magann. Þetta er alltaf spurning um tímaspursmál en gerðist ansi snemma núna. Það rann allt í gegn og ég kastaði aðeins upp, ekki mikið samt. Í gær var þetta þannig að það rann bara vatn í geng því ég hafði ekkert borðað í 2 daga. Síðan fór ég á internetstað og eftir smá stund finn ég verk í maganum og stend upp hið snarasta og byrja að hlaupa heim. Náði því miður ekki í tæka tíð. En þetta gerist, þó svo maður sé orðin stór. Maður getur orðið svo lítill í sér þegar maður verður svona veikur og er langt í burtu frá sínum nánustu. Sem betur fer er Einar jógakennari kominn í heimsókn og var til staðar. Það var voða gott. Hann var reyndar líka með í maganum en degi á undan mér.
Ég byrjaði í söngtíma í gær. Mjög athyglisvert. Frábær kennari og söngvari eins og ég var búin að segja frá. Þetta er mjög skemmtileg tækni og gott fyrir mig að læra og heilmikil áskorun. Ég fór í minn annan söngtíma í dag og þá voru komnir áhorfendur. Ég var nú hálffeimin fyrst. Veit ekkert hvað þeim finnst um hvíta stelpu sem er að reyna að syngja eins og Indverji....hahaha. En þetta gekk bara ótrúlega vel og síðan var ég beðin um að syngja vestrænt lag sem ég gerði. Veit ekkert hvað þeim fannst því þeir töluðu svo litla ensku en ég held...að þeim hafi líkað lagið. Ég verð búin að læra heilmikið áður en ég kem heim. Síðan byrjaði ég í dag að læra á tabla. Það var líka mjög gaman og greinilegt að þetta er ævilangt nám. Rosalega flott hvernig er spilað er á þessar trommur. Ég er að sjálfsögðu búin að panta eitt sett. Þetta er svolítið flókið og krefst mikillar samhæfingar. En æfingin skapar meistarann og nú mun ég tromma eins mikið og ég get hér eftir.

Núna finnst mér ég vera lent.

Saturday, February 03, 2007

Hiphop yoga

Já það er alltaf verð að skapa eitthvað nýtt í kringum yoga. Nýjasta nýtt Hip hop yoga. Kl 19 söfnuðust allir saman á húsþaki hér í Mysore og einn strákur byrjaði að rappa um yoga og Indland. Einn strákur spilaði á tabla og annar á bala ( þvottabala). Þetta var ótrúlega flott og þvílíkur húmor á ferðinni. Mæli með að þið skoðið þetta www.mcyogi.com .

Fór líka í spa sem var gott, ekkert nýtt á ferð, bara allsber í pjötlu, löðrandi í olíu og nudduð frá toppi til táar.

Er farin að sofa. Góða nótt.

Mysore febrúar 2007

Ég er komin til Mysore, er búin að koma mér vel fyrir og farin að aðlagast nýrri tímasetningu. Ég flaug beint til Bangalore og þar tók á móti mér hann Kumar sem hefur verið mér innan handar þegar ég þarf að fá bílstjóra til að keyra mig til Mysore. Ég var búin að segja honum að ég vildi fara beinustu leið frá flugvellinum til Mysore enn.....hann fór samt sem áður með mig og aðra stelpu frá bretlandi sem slóst með í för, heim til sín í kaffi. Við vorum svosum alveg til í góðan kaffibolla til að vekja okkur aðeins því klukkan var rúmlega 6 að morgni. Við komum inn og hann vekur konuna sína sem staulaðist fram úr í náttkjólnum sínum og lagaði dísætt kaffi handa okkur. Hálftíma seinna vorum við lagðar aftur af stað. Þegar komið var til Mysore tók við það verkefni að finna herbergi til leigu. Yfirleitt þegar ég hef komið hingað hef ég fengið herbergi samdægurs en það var aldeils ekki að gerast núna. Hér hefur aldrei verið jafn mikið af vestrænum fólki í jóga. Ég hitti gamla vini sem ég fekk að gista hjá eina nótt. Ótrúlegt en satt þá var ég komin með herbergi daginn eftir. Ég hringdi í Meenuh, indversku vinkonu mína og hún var búin að taka frá herbergi fyrir mig í næsta húsi við sig, þessi elska. Mjög gott herbergi, í skugga, með ísskáp, viftu sem lætur ekki eins og þyrla og fínasta klósett. Ég settist niður með Meenhu daginn eftir og spjallaði heilmikið við hana um raunir síðasta árs hjá henni því mikið hefur gengið á. Það var andlát í fjölskyldunni í fyrra þegar ég var hérna og allir að syrgja. Síðan er mamma hennar sem býr í chennai að glíma við geðræn vandamál og Meehna greyjið alveg útkeyrð með dökka bauga undir brúnu augunum sínum. Ég ætla að skrifa pistil um hana í Vikunni þar sem ég skrifa nánar um hvernig Indverjar syrgja og hvernig hennar líf er búið að vera. Nú það var ýmislegt sem ég var búin að ákveða að taka mér fyrir hendur hér í Mysore, að læra á talba trommur og fara í söngtíma. Ég er svo ljónheppin að hafa kynnst frábærum professional tónlistarmönnum sem ég fór á fund með í gær og ég sveif út. Þar voru komnir saman mjög þekktur flautuleikari, talba trommari og fleiri tónlistarmenn og m.a var hringt í söngvara sem átti að kynna mig fyrir. Ég sat þarna og hlustaði á undurfagra indverska tónlist. Síðan mætti söngvarinn. Þvílík rödd sem kom úr þeim manni. Ég husgsaði með mér hvað ég væri ótrúlega lánsöm að sitja þarna og að vera að fara að læra hjá þeim. Ég byrja í næstu viku og get ekki beðið. Einnig ætlar Ravir Shankar, flautuleikarinn að panta fyrir mig hljóðfæri og fleira skemmtilegt. Ég mun koma hlaðin heim:-) og það verður sko spilað og sungið. Tónlist er eitthvað sem allir geta tengt við og fyrir mér er hún eitthvað æðra. Yoga og tónlist, hin fullkomna gleðiblanda. Ég hef ákveðið að koma hingað aftur næsta sumar. Þá eru MIKLU færri jóganemendur og ég ætla jafnvel að taka upp tónlist með þessum tónlistarmönnum. Ég mun líklega bíða með þangað til í sumar að biðja um authorization hjá Patthabi. Finnst vera allt of mikið af fólki núna og ég vil gera þetta í ró og næði. Allavega líður mér þannig núna. Í dag ætla ég í rosalega flott SPA sem opnaði fyrir ári síðan. Ótrúlega fallegur staður sem bíður upp á allskyns meðferðir. Það eru spennandi tímar framundan og ég er mjög ánægð með að hafa ákveðið að fara þrátt fyrir að hafa fundist erfitt að fara frá litla barninu mínu yoga shala. En stöðin er í góðum höndum og alltaf gaman fyrir alla að breyta til. Namaste -Ingibjörg