Best að drífa sig aftur
Nú blogga ég frá Íslandi. Ég náði aldrei að setja mig aftur í stellingar til að skrifa meira um Auroville en ætla hér og nú segja aðeins betur frá þeim undarlega skemmtilega stað. Þeir sem vilja vita meira um Auroville geta farið inn á www.auroville.org. Þegar við komum þarna seint um kvöld tók franskur herramaður á móti okkur sem leit út eins og Fróði í einu sinni var, með sítt grátt hár og skegg. Hann er með gistiaðstöðu sem heitir new creation. Þarna eru litlir kofar eða hús og síðan skólar fyrir indversk börn. Við vorum svo ánægð þegar við komum inn í litla húsið sem við áttum að gista í. Þarna var eldhús, svefnherbergi, bað og lítill skáli eða verönd með moskítóneti yfir. Síðan næsta dag í dagsbirtunni sáum við hvað var skítugt þarna. Ég tók mig til og keypti sótthreinsandi efni til að taka klósett og bað í gegn. Ég lenti í þvílíku maurastríði. Þeir voru búnir að koma sér vel fyrir aftan á klósettinu, bakvið vaskinn og guð má vita hvar. Það tók mig ca klukkutíma að skola þá í burtu og voru síðan komnir í stuð aftur eftir nokkra daga. Síðan heimsótti okkur þessi hressa stökkkónguló. Hún hoppaði og skoppaði í rúminu okkar og endaði síðan á veggnum. Víðir vildi drepa hana en ég vildi setja skál yfir hana og henda henni út og tók það verkefni að mér. Það tókst og þá tók Víðir við og fór með hana út í skála til að henda henni út. En viti menn. Henni tókst að hoppa aftur inn á flugi og hékk í moskítónetinu. Með því að henda á hana handklæði flúði hún einhvernveginn út.....held ég. Eftir 2-3 daga í Auroville leist okkur ekkert á staðinn. Auroville er inn í skógi svo maður sá ekki neitt hvað var í gangi þarna. Úff hugsuðum við. Nennum við að hanga hér í 2 vikur. Jú gefum þessu séns. Sem betur fer gerðum við það því þetta var alveg frábært að vera þarna.